Í dag hélt 1.- 4. bekkur í vorferðina sína en ferðinni var heitið á Ingólfshöfða. Við borðuðum hressingu í Freysnesi og stoppuðum svo við Grunn- og leikskólann í Hofi þar sem við fengum að kíkja á leikskólakrakkana þar sem skólakrakkarnir voru á Höfn. Þar var spilaður fótbolti, rólað, skellt sér á ærslabelg. Við borðuðum svo hádegismat við Hótel Hnappavelli aður en við lögðum af stað í ferðina okkar á Ingólfshöfða. Einar, leiðsögumaðurinn okkar, keyrði okkur á kerru að höfðanum og fylgdi okkur svo gangani um höfðann. Hann sagði okkur frá fuglunum, Ingólfi Arnarsyni og bátaskýlinu sem er upp á höfðanum. Hann leyfði okkur að skoða Lunda í gegnum flottann kíki sem hann hafði meðferðis og ferðin endaði á því að við fengum að renna okkur niður stórar sandöldur á sleðum. Það var ansi spennandi en við vorum heppinn og allir komu heilir niður. Á leiðinni til baka stoppuðum við aftur í Freysnesi og borðuðum nestið, allir voru orðnir vel svangir eftir langa göngu, sérstaklega gönguna upp sandölduna, sem var ansi há.
Hér eru nokkrar myndir úr ferðinni...
Niðurstöður úr lesfiminni voru sendar heim í lesheftum nemenda í dag. Gaman er að segja frá því að allir í 1.- 2. bekk hafa sýnt framfarir frá því í haust en textinn sem þau lásu núna í maí er sá sami og þau lásu í september sl.
Minni svo á vorferðina á morgun. Mikilvægt að krakkarnir komi klæddir eftir veðri en þau geta tekið með sér bakpoka með hlífðarfatnaði. Skólinn sér um nesti og hádegismat í ferðinni. Áætlaður komu tími á Klaustur er á milli 16.00-17.00.
Fimmtudaginn, 16. maí, ætlar skólafélagið Askur að standa fyrir sumarballi fyrir nemendur skólans í matsalnum. Ballið fer fram síðustu tvær kennslustundirnar og verður sjoppa á staðnum. Skólafélagið hvetur alla til að mæta í sumarlegum klæðnaði.
Fimmtudagur 16. maí Lesfimi: orðaleysulestur og Sumarball
Föstudagur 17. maí Lesfimi: Sjónrænn orðaforði
Mánudagur 20. maí Stærðfræðipróf/könnun
Þriðjudagur 21. maí Hefðbundinn dagur
Miðvikudagur 22. maí Vorferð 1.- 4. bekkjar á Ingólfshöfða
Fimmtudagur 23. maí Heimsókn á Leikskólann Kærabæ
Föstudagur 24. maí Hefðbundinn dagur
Mánudagur 27. maí Frágangur og tiltekt
Þriðjudagur 28. maí Vorhátíð
Miðvikudagur 29. maí Skólaslit
Í dag fóru krakkarnir í fatasund og skemmtu þau sér alveg konunglega. Bæði Herdís og Sigmar fengu að kenna á því og enduðu þau bæði fullklædd út í laug í öllum látunum.
Við fengum unga stúlku í heimsókn til okkar í dag. Hún er frá Grindavík, krakkarnir tóku alveg ofboðslega vel á móti henni og voru bæði kurteis og tillitsöm við hana.
Þar sem ég var sjálf í kennslu á meðan krakkarnir voru í sundi klikkuðum við alveg á því að ná mynda af þeim en það hefði verið afskaplega gaman að setja mynd af þeim hérna inn á síðuna... kannski næst.
kv. Solla
Á miðvikudaginn, 8. maí, eftir hádegi kemur Linda Ösp Gunnarsdóttir og tekur myndir af nemendum og starfsfólki skólans. Við hvetjum foreldra til að huga að því að krakkarnir séu snyrtilegir til fara fyrir myndatökuna.
Á föstudaginn, 10. maí, verður fatasund hjá nemendum 1.-2. bekkjar í sundtímanum þeirra. Foreldrar þurfa því að senda nemendur með aukafatnað til að nota við þetta skemmtilega tækifæri. Sigmar nefndi að gott væri fyrir yngsta hópinn að vera léttum fötum (t.d. úr nylon) en sem minnst í fatnaði úr bómull þar sem bómullarfötin verða þung þegar þau blotna.
Á morgun, miðvikudag, eru foreldraviðtöl og því engin kennsla. Í gær fengu nemendur heim með sér blöð fyrir viðtölin þar sem fram kemur viðtalstíminn. Foreldrar fengu líka póst fyrir helgina en hugsanlega eru viðtalstímarnir sem þar koma fram ekki réttir. Ég vil því biðja foreldra að fara eftir viðtalstímunum á útprentuðu blöðunum sem eru í lesheftum barnanna.
Sjáumst á morgun!
Þann 6. mars n.k. ætlar Nemendafélagið Askur að bjóða öllum leikskóla- og grunnskólabörnum á öskudagsball, sem haldið verður í matsal Kirkjubæjarskóla kl.20-22.
Kötturinn verður sleginn úr tunnunni
Tónlist og dans
Sala á kristal/svala og sælgæti
Frítt verður inn fyrir leikskóla- og grunnskólabörn
Fullorðnir 1000 kr / 500 kr ef mætt er í búning
Sælgæti verður selt á vægu verði og mælst er til þess að börn komi ekki með meira en 500 kr.
Hlökkum til að sjá ykkur!
Síðast liðinn fimmtudag var árshátíð skólans haldin í félagsheimilinu Kirkjuhvoli. Krakkarnir sýndu þar völd atriði úr Barnasöngleiknum um Emil í Kattholti eftir Astrid Lindgren við góðar viðtökur foreldra og annara gesta. Að leiksýningu lokinni var boðið í kaffi í matsal skólans og nemendur í 6.- 7. bekk héldu dansiball fyrir yngri nemendur skólans og aðra yngri gesti á meðan á kaffinu stóð. Heppnaðist dagurinn
Sælir foreldrar!
Í lesmöppum nemenda er að finna skráningrblað vegna þátttöku í Lífshlaupinu 2019. Allur Kirkjubæjaskóli keppir sem eitt lið og þurfið þið að aðstoða barn/börn ykkar við að fylla út skráningarblaðið og passa að það rati svo aftur í lesmöppuna þar sem ég tek skráningarblöðin reglulega og færi inn.
Krakkarnir þurfa að hreyfa sig í að minnsta kosti 60 mínútur yfir daginn og er öll hreyfing talin með, t.d. ganga, hlaup, fótbolti, útileikir og íþróttaæfingar. Ath! að krakkarnir þurfa ekki að hreyfa sig samfleytt í klukkustund en skipta má hreyfingunni upp í nokkur skipti t.d. fótboltaæfing 40 mín, útileikir 20 mín. en mikilvægt er að skrá þarf niður hreyfinguna og tímann sem fer í hana.
Endilega hafið samband við mig ef þið hafið einhverjar spurningar en nánari upplýsingar um Lífshlaupið er hægt að finna hér: http://www.lifshlaupid.is/
Bestu kveðjur, Solla
Á föstudaginn, 24. janúar, ætlum við að vera með dótadag í Lambatungum. Krakkarnir hafa beðið um það nokkrum sinnum og ég alltaf lofað því að við myndum finna tíma til þess og loksins létum við verða að því að finna okkur dag.
Sæl verið
Þá er jólatörnin búin hjá öllum og ný önn að hefjast. Ég vona að allir nemendur og fjölskyldur þeirra hafi átt gott jólafrí.
Við erum svona að koma okkur af stað eftir fríið en við erum þó með nokkra hluti á dagskránni hjá okkur á næstunni.
Bekkurinn ætlar að taka þátt í lestrarátaki Ævars Vísindamanns en þá mun ég halda utan um skráninguna. Ég mun skrá niður lestrarbækunar þeirra þ.e. bækurnar sem þau ljúka við að lesa og eru skráðar í heimalestursheftin frá og með 7. janúar sl.
Heima fyrir geta nemendur og foreldrar einnig tekið þátt en ég mun senda ítarlegri upplýsingar um átakið og reglur þess með næsta föstudagspósti og þá einnig lestrarmiðana sem notaðir eru í átakinu.
Lestrarátakið stendur frá 1. janúar- 1. mars og hvet ég foreldra eindregið til að taka þátt með börnunum.
Að vanda verður Lesfimin lögð fyrir nemendur skólans í janúar, ég mun leggja fyrir nemendur í 1.-2. bekk Orðaleysulestur og Sjónrænn orðaforði en Katrín mun leggja fyrir nemendur sjálfa lesfimina. Þetta verður klárað í janúarmánuði og munu foreldra svo fá útprentaðar niðurstöður heim þegar þær liggja fyrir.
Sú breyting hefur orðið í stundatöflunni okkar að nú á vorönn munu nemendur 1.-2. bekkjar fá að fara í heimilisfræði einu sinni í viku. Heimilisfræðitímarnir verða í síðustu tveimur tímunum á miðvikudögum og fara þau því ekki í gæslu á miðvikudögum.
Nemendur og starfsfólk Kirkjubæjarskóla héldu sín árlegu Litlu jól í dag og skólinn því komin í frí fram yfir áramót. Ekki var annað að sjá en að allir færu ánægðir út í jólafríið með bros á vör. Við borðuðum góðan mat saman, fengum jólasveina í heimsókn, sungum og dönsuðum í kringum jólatréð, lásum jólasögu og jólakort og auðvitað má ekki gleyma pakkaleiknum. Ég vil hvetja foreldra til að gleyma ekki lestrinum í jólafríinu og hvet nemendur og foreldra til að lesa heima yfir hátíðirnar.
Að lokum langar mig að óska nemendum og fjölskyldum þeirra gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári með þökkum fyrir samstarfið á liðnum vetri. Hlakka til að sjá ykkur hress og kát eftir áramót!
Jólakveðja, Solla
Síðustu daga höfum við verið að dunda okkur við ýmislegt skemmtilega. Við erum búin að skreyta bekkjarhurðina okkar, skreyta jólatréð og föndra álfa og jólaketti. Nú eigum við bara eftir að klára að útbúa nýja bekkjarpóstkassann okkar en sá sem hefur verið notaður síðustu ár fyrir 1.- 2. bekk var orðinn frekar slappur. Í vikunni hafa líka allir nemendur skólans komið saman upp í matsal og sungið saman jólalög en það er gömul hefð hér í Kirkjubæjarskóla sem alltaf er jafn skemmtileg. Á morgun ætlum við svo að byrja á jólakortunum.
Í dag fórum við að félagsheimilinu þar sem jólaljósin á jólatrénu voru tendruð. Nemendur skólans og leikskólans sungu jólalög undir stjórn Teresu og Zbigniew en einnig fengum við tvo jólasveina í heimsókn sem hafa verið að flýta sér til byggða.... hugsanlega í jólaklippingu enda vel skeggjaðir eftir langa dvöl upp í fjöllum.
Leiksýningin Krakkarnir í hverfinu sem sýna átti þann 29. nóvember hefur verið færð fram um einn dag. Sýningin verður því sýnd kl.8.40 miðvikudaginn 28. nóvember n.k. og er einungis fyrir nemendur 1.-4. bekkjar. Í verkinu eru brúður notaðar til að fræða börnin um líkamlegt og kynferðislegt ofbeldi.
Þann 30. nóvember kl.10.15 verða tendruð jólaljósin á jólatréinu við félagsheimilið. Nemendur skólans munu við tækifærið syngja nokkur jólalög undir stjórn Teresu og Zbigniew
Í dag kom skólinn saman í söngstund í matsalnum. Söngstundin er nýr viðburður sem Teresa og Zbigniew, tónlistakennarar, á heiður af og er stefnt að því hún verði mánaðarlegur viðburður í starfi skólans. Í gegnum tíðina hefur þó sú hefð verið við skólann að við syngjum saman daglega í desembermánuði og verður engin breyting þar á.
Í dag afhenti Björk nemendum í fyrsta bekk bókagjöf frá IBBY á Íslandi. Bókin heitir ,,Nesti og nýjir skór" en í henni eru ljóð, sögur og myndir sem íslenskir krakkar hafa lesið árum og áratugum saman.
IBBY á Íslandi er félag fullorðins fólks sem finnst ennþá gaman að lesa barnabækur og finnt þær í raun mjög mikilvægar. Hægt er að skoða meira um félagið á ibby.is
Í seinustu tveimur kennslustundunum í dag var ball haldið fyrir nemendur 1.- 7. bekkjar. Á ballinu var svakalegt stuð og læti og allir virtust skemmta sér vel. Í hléinu var hægt að kaupa svala, rice krispies og sleikjó fyrir 300 kr. Nemendur 8.- 10. bekkjar sá um skipulagningu og framkvæmd með aðstoð nemenda út 7. bekk. Á ballinu var m.a. dansað, farið í leiki og masserað.
Í vikunnu fengum við Jón Pétur, danskennara, til okkar en hann kenndi nemendum skólans nokkur vel valinn spor að vanda. Kennslunni lauk svo eftir hádegi í dag með danssýningu fyrir foreldra og aðstandendur. Að sjálfsögðu stóðu nemendur sig með prýði eins og venjulega.
11. október
Í dag fengum við hana Gretu Clough í heimsókn en hún sýndi okkur stutt brúðuleikrit um Búkollu. Að leikritinu loknu fóru nememdur 1.-5. bekkjar í vinnustofu til hennar þar sem hún kenndi þeim að búa til brúður. Greta sýndi krökkunum fullt af flottum brúðum í mismunandi stærðum sem hún hefur sjálf gert en hún reynir að nota að mestu endurnýtanlegt efni eins og til dæmis tappa, gömul reipi, efnisbúta, bylgjupappa og ýmislegt fleira.
Foreldraviðtöl 9. október
Leiklist fyrir alla - Brúðugerð 11. október
Starfskynningar
Heimanám í stærðfræði
Á morgun, þriðjudaginn 25. september, verður námsgagnakynning í skólanum frá kl.20.00-21.00. Umsjónarkennarar verða í sínum heimastofum og taka á móti foreldrum en foreldrar geta m.a. skoðað námsefni bekkjanna.
Þann 27. september mun ég leggja fyrir nemendur 1. bekkjar stafakönnun fyrir hádegi. Tilgangur könnunarinnar er að gera kennara kleift að afla upplýsinga um stafaþekkingu nemenda á fyrstu stigum lestrarnáms en könnunin fer fram einstaklingslega.
Kl. 14.00 verður 1- 4. bekk boðið í félagsheimilið en þar ætlar Bernd Ogrodnik, brúðulistamaður hjá Brúðuheimum, að sýna sýninguna sína "Sögustund" en Bernd er að ferðast með sýninguna sína með Þjóðleikhúsinu um landið í september.
Í dag tókum við þátt í Ólympíuhlaupinu (Gamla Norræna skólahlaupið). Krakkarnir stóðu sig mjög vel og fóru 2,5 km og fengu aðeins að leika sér úti á skólalóðinni áður en þau fóru í sjónlist.
Í vikunnu mun Katrín byrja að leggja lespróf fyrir nemendur skólans. Að þessu sinni mun hún bara prófa nemendur í 2. bekk. Við vonumst til að hún muni klára fyrirlögnina í næstu viku.
Að þessu sinni lá leið okkar inn að Eldgjá en þar gengu eldri nemendur að fossinum með leiðsögn landvarðar. Við í 1. - 2. bekk gengum áleiðis en snérum svo við og fórum að leika okkur og fleyta kerlingar. Ferðin tókst bara vel til þrátt fyrir að rignt hafi á okkur en við borðuðum nesti í Hólaskjóli og við Tungusel.