Þó sólin léti lítið sjá sig var sól í sinni nemenda og starfsfólks þegar lagt var af stað í morgun áleiðis að Hjörleifshöfða.
Framdekk rútunnar voru þó rétt komin inn fyrir Mýrdalshrepp þegar það byrjaði að rigna en stutta stund þó :)
Þórir Kjartansson eigandi Hjörleifshöfða tók á móti hópnum og eftir að allir höfðu hresst sig við með morgunbrauði og drykk frá þeim Stínu og Rannveigu tók við sögustund með Þóri. Sögu íbúanna Höfðans þekkir Þórir manna best, þar bjuggu afi hans og amma til árins 1920 en fjölskylda Þóris bjó í Hjörleifshöfða allt frá frá árinu 1832 þegar langafi þeirra, Loftur Guðmundsson, flutti þangað Áður hafði verið búið á jörðinni með litlum hléum frá því Hjörleifur Hróðmarsson landnámsmaður byggði þar tvo mikla skála við Hjörleifshöfða.
Þórir afhenti skólanum góða gjöf, myndband um Kötlugos að fornu og nýju sem hann hefur sjálfur unnið og færum við honum bestu þakkir fyrir.
Allur hópurinn lagði síðan af stað í átt að gömlu bæjarrústunum, þar sem áð var og bæjarkostur skoðaður. Æði margir fylgdu síðan nokkrum sporléttum starfsmönnum, upp brattann, upp á hæsta punkt Höfðans þar sem minnisvarði var reistur fyrir nokkrum árum um Hjörleif landsnámsmann sem þar er heygður. Þar er einnig grafreitur fyrrum ábúenda í Hjörleifshöfða, Markúsar Loftssonar og Áslaugar Skæringsdóttur.
Þegar komið var niður af Höfðanum biðu okkar grillaðar pylsur, ávaxtadrykkur og kakómjólk. Og eins og í alvöru ferðalögum byrjaði að rigna þegar komið var að matartíma.
Frá Hjörleifshöfða var haldið í átt að Álftaveri, hringurinn farinn undir leiðsögn Stínu okkar sem er fædd og uppalin á bænum Jórvík. Komið var við að þjónustuhúsi sem stendur við kirkjuna á Þykkvabæjarklaustri og myndaðist fljótt biðröð þar. Það hafði stytt upp og nemendur nutu þess að hlaupa um og teygja fætur eftir setuna í rútunni.
Síðasti áningastaður var síðan í lautinni við Eldvatn eða Ásavatn eins og sumir vilja nefna það. Þar voru kökur og kruðerí í boði og voru gerð góð skil bæði af nemendum og starfsfólki.
Ferðinni lauk þar sem hún hófst, við Kirkjubæjarskóla rétt rúmlega hálf fjögur.
Bestu þakkir fær Gunnar Valdimarsson, sem var bílstjóri í þessari haustferð sem og mörgum öðrum haustferðum skólans. Hann er ávallt reiðubúinn að koma og aka hópnum hvert sem leið liggur og eins og hann segir sjálfur: , hefur alltaf jafngaman af því :)
Klausturvegur 4 | 880 Kirkjubæjarklaustur Sími á skrifstofu: 487 4633 Netfang: skoli@klaustur.is |
Skrifstofa skólans er opin mánudaga - föstudaga 8.15-12.25 |
Munið að sækja tímanlega um leyfi fyrir nemendur .