Verum dugleg að nota endurskinsmerki í skammdeginu

Nauðsynlegt er að gangandi vegfarendur noti endurskinsmerki. Það liggur fyrir að í myrkri sjást gangandi vegfarendur illa þrátt fyrir götulýsingu og ökuljós bifreiða. Ökumenn sjá gangandi vegfarendur með endurskinsmerki fimm sinnum fyrr en ella. Ef ekið er með lágu ljósin sér ökumaður gangandi vegfaranda sem er dökkklæddur, ekki fyrr en í 25 m fjarlægð en ef viðkomandi er með endurskinsmerki sést hann aftur á móti fimm sinnum fyrr eða í 125 metra fjarlægð.Til eru margar stærðir og gerðir af endurskinsmerkjum, þau eru ódýr og öflug forvörn sem geta skilið milli lífs og dauða.

Endurskinsmerki þurfa að vera rétt staðsett, best er að hafa þau eins neðarlega og hægt er og að þau sjáist frá öllum hliðum. Heppilegast er að velja fyrir börnin fatnað, skó og töskur sem hafa endurskinsmerki á sér.

Hvar?

  • Hangandi merki er best að hafa beggja vegna á hliðum, neðst á yfirhöfn
  • Límd merki er best að hafa bæði að framan og aftan neðst á yfirhöfn og fyrir miðju
  • Á skóm eða neðarlega á buxnaskálm
  • Fremst á ermum
  • Allar skólastöskur/bakpokar eiga að vera með endurskinsmerki
  • Á barnavögnum er best að hafa endurskin á öllum hliðum

Mikilvægt er að hafa í huga sé endurskinsmerkið orðið gamalt, máð og rispað þá getur verið að það sé búið að tapa endurskins eiginleikunum og borgar sig að skipta út endurskinsmerkjum reglulega.

Endurskinsmerki sem uppfylla ekki kröfur um endurskin veita falskt öryggi og getur þar af leiðandi skapast lífshætta. Endurskinsmerki sem standast kröfur eru CE merkt, eru merkt nafni framleiðanda og tegund og merkt með staðlinum EN13356. Sömu reglur gilda fyrir öll endurskinsmerki sama hvernig þau líta út, t.d endurskinsborði, hangandi endurskinsmerki,skokkbönd, hárskraut, límmerki, saumborða og límborða.

Nú þegar skammdegið er gengið í garð  er tilvalið að minna á að nota endurskinsmerki jafnt börn sem fullorðnir. Í myrkrinu sjáumst við illa og er því notkun endurskinsmerkja bráðnauðsynleg.

Ég  hvet foreldra til að sýna ábyrgð og gott fordæmi með því að nota þessi nauðskynlegu öryggistæki sjálf sem og að sjá til þess að börnin séu vel merkt. Endurskinsmerki eru fyrir alla.

 

 

f.h. Heilbrigðisstofnunar Suðurlands

Auðbjörg Brynja Bjarnadóttir, hjúkrunarstjóri

heilsugæslustöðinni á Kirkjubæjarklaustri

 

Heimildir:

landlaeknir.is

samgongustofa.is

neytendasamtokin.is